Sagan okkar

Velkomin til Skagafjarðar

Hver erum við?

Hraun á Skaga er nyrsti bær á skaganum sem skilur að Húnaflóa og Skagafjörð. Sumir kannast við bæjarnafnið vegna veðurathugunarstöðvarinnar sem starfrækt var um áratugaskeið og kannski ekki síður vegna bjarndýrsins sem gekk þar á land árið 2008. Á Hrauni  hefur sama fjölskyldan búið meira en hálfa aðra öld og lifað af landsins gæðum, sauðfjárrækt, sjósókn og hlunnindanýtingu, þar með talið æðarrækt.

 

Upphafið

Einu sinni var…

Vordag einn árið 1914 gekk Steinn Leó Sveinsson bóndi á Hrauni (1886-1957) út með fjörunni, áleiðis að vitanum og rakst þar á þrjár æðarkollur sem höfðu hreiðrað um sig á litlum grasbala. Í þá daga var auðfenginn matur dýrmætur og því algengt að tína egg úr hreiðrum villtra fugla. Steinn ákvað hins vegar að gera það ekki, en þess í stað byrja að hæna æðarfuglinn að, fyrst og fremst með verndun varplandsins. Útfrá þessum þremur æðakollum hefur æðavarpið stækkað jafnt og þétt og telur nú fjórum ættliðum seinna  2.000 – 3.000 pör af æðarfuglum sem koma á hverju ári að Hrauni til að verpa.
Í dag

Fjölskylduverkefni

Rögnvaldur Steinsson (1918-2013) tók ásamt eiginkonu sinni Guðlaugu Jóhannsdóttur (1936-2024) við búinu af foreldrum Rögnvaldar. Þau voru bæði heilluð af æðarfuglunum og notuðu fjölmargar aðferðir til að laða fuglana að varplandinu m.a.litríka fána, útbjuggu bjöllur eða klukkur sem klingja í vindi og hreiðurskjól fyrir fuglinn. Rögnvaldur lét aldurinn ekki stoppa sig og 94 ára hélt hann ótrauður áfram að heimsækja æðarvarpið, dytta að og horfa yfir vel unnið ævistarf. Það sama gerði Guðlaug og  óteljandi ferðir hennar um varplandið fyrir, um og eftir varptíma, athyglin og eljan allt til dánardægurs voru hennar líf og yndi.  Það ævistarf og sá viskubrunnur sem þau hjónin láta eftir sig er ómetanleg arfleifð. Ábúendur á Hrauni á Skaga í dag eru bræðurnir Steinn Leó Rögnvaldsson (1957-) og Jóhann Eymundur Rögnvaldsson (1962-) ásamt fjölskyldum sínum. Á hverju ári kemur svo stórfjölskyldan saman til að hlúa að æðarfuglinum og vinna úr æðardúninum, svo úr verður verðmæt hágæðavara og einhver umhverfisvænsti dúnn á markaðnum.

Sjá myndband

Ávöxtur erfiðisins

Æðardúnssængurnar okkar

Mest allur íslenskur æðardúnn er en í dag að stærstum hluta hrá útflutningsvara, sendur í svörtum ruslapokum til hinna og þessara heildsala, fyrir einungis lítinn hluta af loka söluverði. Þá hefur gætt misræmis milli heimsframleiðslu á æðardún og sölu, sem kyndir undir þá tilgátu að æðardúnssængur sem ekki séu 100% séu seldar sem slíkar.

 

Þetta tvennt ásamt áhuga okkar á að efla íslenskt handverk, útbúa einstakar hágæða æðardúnssængur og eiga bein samskipti við viðskiptavini okkar gerði það að verkum að við ákváðum að hanna og búa til okkar eigin æðardúnssængur. Þær eru handgerðar af okkur með ást og umhyggju úr umhverfisvænni bómull og fylltar með 100% hreinum hágæða æðardún svo þú fáir þann notalega svefn sem þú átt skilið. Sængurnar eru merki þess fallega og einstaka sambands sem fjölskyldan á Hrauni á við æðarfuglana sem þar dvelja.

Skoða Sængur

Ýtið á hnappin að neðan til þess að skoða æðardúnsængurnar. Endilega heyrið í okkur með spurningar. Hafið samband á netfangið [email protected] eða í síma 835 9600.